Mannlegi þátturinn í þjónustu við eldra fólk.

Mannlegi þátturinn í þjónustu við eldra fólk.

Andleg umönnun er mikilvæg
Kjarni andlegrar umönnunar er nærvera. Í henni felast kynni og umhyggja sem er annars konar en læknisfræðileg meðhöndlun. Sjónum er beint að tilfinningalegum, félagslegum og andlegum þáttum. Þess ber að geta að hið andlega er ekki það sama og hið trúarlega. Fólk getur verið andlega sinnað og átt sinn andlega veruleika án þess að trúa á Guð eða æðri mátt. Að liðsinna fólki andlega snýst um að hjálpa fólki að finna lífi sínu merkingu og tilgang; að skilja sjálfa sig og aðra. Líf okkar er samfellt þroskaferli. Þrátt fyrir mikla æskudýrkun og jafnvel aldursfordóma viðurkenna flestir að aldri fylgi aukinn þroski. Þá er meðal annars átt við að umburðalyndi og skilningur vaxi. Þegar fólk skynjar nálægð við dauðann fær andlegi þáttur lífsins, hin andlega vitund, gjarnan aukið vægi og verður mikilvægari.

Brugðist við einmannaleika
Margir kannast við að einmanaleiki fólks eykur kvíða og skerðir lífsgæði verulega. Við þessu reyna fjölskyldur að bregðast með símhringingum og heimsóknum. Ekkert kemur í staðinn fyrir nálægð annarrar manneskju sem með skilningi, hlýrri nærveru, samræðu og hlustun eykur gleði og viðheldur forvitni um lífið sem fram fer utan dyra þess sem sjálfur kemst ekki út. Forvitnin er órækt merki um lífsgleði og lífsvilja, það sem drífur fólk fram úr á morgnana, gefur því kraftinn til daglegra athafna og vilja til að taka þátt í lífinu. Önnum kafið starfsfólk í heilbrigðisþjónustu nær ekki að sinna þörf eldra fólks fyrir samskipti nema að takmörkuðu leyti. Ættingjar og vinir eiga oft í erfiðleikum með að finna tíma til heimsókna vegna hraða og álags sem einkennir nútíma samfélag.

Sjá alla greinina..