Öldruðum fjölgar hratt á Akureyri

Eldra fólki á Akureyri hefur fjölgað mun hraðar síðustu tvo áratugi, en þeim sem yngri eru. Í drögum að nýju aðalskipulagi bæjarins segir að leggja þurfi áherslu á íbúðir fyrir eldri borgara og dregið geti úr uppbyggingu íbúða fyrir yngra fólk.

Kynning á drögum að nýju aðalskipulagi Akureyrarbæjar 2018-2030 stendur nú sem hæst. Í greinargerð um íbúaþróun vekur athygli hröð fjölgun eldra fólks á meðan yngra fólki fjölgar mun hægar. Þannig fjölgaði fólki á aldrinum 50-70 ára um 74 prósent frá árinu 1998 og 70 ára og eldri hefur fjölgað um 43 prósent.

Um leið fjölgaði 20-50 ára um aðeins 7 prósent á sama tímabili og í aldurshópnum 20 ára og yngri fjölgaði um aðeins 6 prósent. Við það verði meiri þörf á íbúðum fyrir eldri borgara en hugsanlega muni draga úr byggingu íbúða fyrir yngra fólk.

Bjarki Jóhannesson, skipulagsstjóri Akureyrarbæjar, vill byggja einhvers konar hálf-félagslegar íbúðir fyrir eldra fólk á Akureyrarvelli. „Þær gætu verið í samvinnu við kannski félagasamtök og verkalýðsfélög og aðra slíka um að byggja ódýrt húsnæði á Akureyrarvelli. Þá er eldra fólki nálægt þjónustu, nálægt verslunum, nálægt Glerártorgi.“

Þessar íbúðir mætti byggja á kostnaðarverði og þá ekki á markaðsforsendum og jafnvel niðurgreiða að einhverju leyti.

„Þá gæti eldra fólk sem býr til dæmis á Norðurbrekkunni í allt of stóru húsnæði selt það húsnæði og yngra fólkið gæti nýtt sér það. Oft eru þetta húsnæði sem henta barnafólki með mörg barnaherbergi.“ segir Bjarki.