SKORTUR Á VALFRELSI

SKORTUR Á VALFRELSI

Mjög skortir á það í íslenskri heilbrigðisþjónustu að neytendur búi við valfrelsi og að þjónustan mæti sem best þörfum og markmiðum einstaklinganna. Stjórnun og veiting þjónustu er ennþá að mestu í höndum hins opinbera og tiltölulega lítið er um það hér á landi að kostir einkarekstrar séu nýttir til þess að auka fjölbreytni, örva samkeppni og bæta árangur. Heilbrigðisþjónusta á Íslandi sinnir þó hlutverki sínu að ýmsu leyti á viðunandi hátt, en með miklum tilkostnaði. Verður hér athyglinni því sérstaklega beint að fjárhagslegri hlið heilbrigðisþjónustu, útgjaldaþróun, valfrelsi neytenda og mögulegum leiðum til að velja hagkvæmari lausnir.

TÆKIFÆRIN BLASA VIÐ

Ef horft er til þeirrar heilbrigðisþjónustu sem veitt er á Íslandi þá blasa tækifærin við þar sem einkarekstur gæti nýst t.d. í heilsugæslu, öldrunarþjónustu, heimahjúkrun og sérfræðiþjónustu. Þessi tækifæri ber að nýta þar sem einkaaðilar geta veitt þjónustu með minni tilkostnaði og meiri gæðum en hið opinbera. Einkarekstur kemur einnig til álita varðandi einstaka þætti í rekstri sjúkrahúsa. Rétt er þó að hafa í huga að einkarekstur er engin töfralausn, en með heilbrigðum einkarekstri má ná betri árangri, bæta þjónustu og nýta fjármagn betur. Síðast en ekki síst má með einkarekstri bæði auka valmöguleika sjúklinga og starfsmanna sem er verðugt markmið. Einkarekstur hefur raunar heppnast best þar sem tekist hefur að auka val möguleika fólks. Áhugaverðar tilraunir hafa til að mynda verið gerðar í Danmörku, Þýskalandi, Hollandi og Bretlandi í félags- og heimaþjónustu. Þar fá einstaklingar afhenta ávísun á heilbrigðisþjónustu, sem þeir geta síðan nýtt þar sem þeir kjósa helst að njóta þjónustunnar, hvort sem hún er veitt hjá einkaaðila eða opinberum aðila, góðgerðarstofnunum eða hlutafélögum sem hafa það að markmiði að skila eigendum sínum arði.

Hlutverk hins opinbera ætti að vera fólgið í því að sjá til þess að fólk fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu og hafa eftirlit með því fremur en að sitja beggja megin borðsins og sjá einnig um að veita þjónustuna. Þar sem því verður við komið ætti að skilja á milli kaupanda og veitanda heilbrigðisþjónustu og byggja opinbera fjármögnun á árangri og afköstum.

Skoða skýrsluna í heild.