Þetta eru 10 einkenni elliglapa sem gott er að þekkja

Þetta eru 10 einkenni elliglapa sem gott er að þekkja

Meðalaldur fólks hækkar sífellt og það eru auðvitað góð tíðindi en þetta hefur jafnframt í för með sér að fleiri munu þjást af elliglöpum eða munu eiga ættingja sem þjást af elliglöpum. Þess vegna er mikilvægt að þekkja einkenni elliglapa svo hægt sé að uppgötva þau snemma og leita læknis til að fá staðfestingu á hvað er í gangi.

Nis Peter Nissen, forstjóri dönsku Alzheimers samtakanna sagði í samtali við Danska ríkisútvarpið að almennt væri fólk ekki nægilega gott í að átta sig á einkennum elliglapa nægilega tímanlega. Hann ráðleggur fólki, sem telur að vinur eða ættingi þjáist af elliglöpum, að vera á varðbergi gagnvart þeim einkennum sem er lýst hér að neðan og hafa strax samband við lækni ef þeirra verður vart.

Þrátt fyrir að elliglöp séu ólæknanlegur sjúkdómur þá er mikilvægt að leita læknis um leið og grunur er uppi um að fólks þjáist af sjúkdómnum því það eru til lyf sem geta seinkað framvindu sjúkdómsins.

Hér eru 10 einkenni elliglapa nefnd til sögunnar.

1. Gleymni. Það er eðlilegt að þurfa að nota minnismiða eða gleyma einhverju og muna síðan eftir því seinna. Það er ekki eðlilegt að spyrja um sama hlutinn margoft eða gleyma einhverju sem maður er nýbúinn að fá að vita.

2. Erfiðleikar með að framkvæma vel þekkt verkefni. Það er eðlilegt að þurfa aðstoð við að stilla nýtt sjónvarp. Það er ekki eðlilegt að eiga í vandræðum með að fylgja mataruppskrift sem maður hefur notað margoft.

3. Erfiðleikar með að finna réttu orðin. Það er eðlilegt að gleyma stundum rétta orðinu. Það er ekki eðlilegt að stoppa í miðju samtali án þess að vita hvernig maður á að halda áfram eða með því að kalla hlutina vitlausum nöfnum, til dæmis segja vísisklukka í staðinn fyrir úr.

4. Ruglingur varðandi stað og stund. Það er eðlilegt að vera ekki viss um hvað vikudagur er. Það er ekki eðlilegt að vita ekki hvort það er vor eða haust eða gleyma hvar maður er eða hvaðan maður kom.

5. Versnandi dómgreind. Það er eðlilegt að taka slæmar ákvarðanir inn á mili. Það er ekki eðlilegt að fara í sandala á veturna eða láta hvað eftir annað tala sig inn á að kaupa eitthvað sem maður hefur ekki þörf fyrir eða efni á.

6. Eiga erfitt með að hugsa óhlutbundið. Það er eðlilegt að eiga erfitt með að skilja sum orðatiltæki eða talsmáta. Það er ekki eðlilegt að halda að þegar kötturinn er úti leiki mýsnar sér inni í bókstaflegri merkingu orðatiltækisins.

7. Erfiðleikar með að finna hluti. Það er eðlilegt að gleyma hvar maður setur fjarstýringuna. Það er ekki eðlilegt að setja gleraugun í ísskáp eða saka aðra um að stela hlutum sem maður finnur ekki.

8. Breytingar á skapi og hegðun. Það er eðlilegt að eiga slæman dag eða verða pirraður þegar rútína manns ruglast. Það er ekki eðlilegt að missa stjórn á sér, fyllast grunsemdum, verða hræddur, reiður eða ruglast í rýminu án nokkurrar ástæðu.

9. Persónuleikabreytingar. Það er eðlilegt að skipta um skoðanir með tímanum og að geta beðist fyrirgefningar ef farið er yfir strikið. Það er ekki eðlilegt að segja allt, sem maður hugsar, án þess að taka tillit til tilfinninga annarra.

10. Skortur á frumkvæði. Það er eðlilegt að hafa stundum ekki næga orku til að sinna vinnunni, fjölskyldunni eða félagslífinu. Það er ekki eðlilegt að fara oft að sleppa tómstundaiðkun, félagslegum viðburðum eða íþróttum sem maður er vanur að stunda.