Virkni eða vetrardvali?

Kyrrseta frystir líkama og sál

Mannslíkaminn er hannaður fyrir hreyfingu en bregst að sama skapi illa við mikilli kyrrsetu. Öll hreyfing er betri en engin hreyfing en almennar ráðleggingar miða við að fullorðnir hreyfi sig rösklega í minnst 30 mínútur samtals daglega og börn hreyfi sig í minnst 60 mínútur daglega.

Með hreyfingu smyrjum við liðamót og losum um andlega og líkamlega spennu. Við færum líkamanum súrefni og næringarefni og losum hann við úrgangsefni. Með tímanum styrkjast bein og vöðvar og hjarta- og æðakerfið verður afkastameira. Allt þetta stuðlar að því að við höfum meiri orku og styrk til að takast á við verkefni daglegs lífs og til að gera það sem okkur finnst skemmtilegt. Algengir fylgifiskar langvarandi kyrrsetu eru hins vegar stirðleiki, kraftleysi, verkir og vanlíðan ásamt því að líkurnar á ýmsum sjúkdómum aukast til muna.

Virk að vetrarlagi

Eins og komið hefur fram upplifa sumir fleiri hindranir fyrir hreyfingu á veturna en á sumrin. Snjór, kuldi, hálka og skortur á birtu eru dæmi um áhrifaþætti sem geta dregið úr hreyfingu. Við þær aðstæður er því enn mikilvægara en ella að vera vakandi fyrir því að uppfylla daglega hreyfiþörf. Hægt er að vera virk/-ur á fjölmargan hátt innan dyra svo sem með því að stunda ýmiss konar íþróttir, leikfimi eða jóga. Ef hálka er hindrun eru fjölnota íþróttahús og verslunarmiðstöðvar dæmi um hentugt svæði til gönguæfinga. Það er hins vegar ekki síður gott að drífa sig reglulega út og fá ferskt loft í kroppinn. Veðrið er sjaldan það slæmt að klæðnaður við hæfi sé ekki nægileg vörn. Börn eru klædd upp til að þola flest veður og hinir fullorðnu ættu ekki að vera í vandræðum með að gera slíkt hið sama.

Sjá vef landlæknis