Forvarnir

Í bæk­lingn­um Örugg efri ár frá VÍS má sjá ýt­ar­lega um­fjöll­un um  hvernig má fyr­ir­byggja slys­in. Gátlista um ör­yggi eldri borg­ara heima er síðan gott og ein­falt að nota til að sjá eft­ir hverju á að horfa á heim­ili hvers og eins eldri ­borg­ara til að gera það ör­ugg­ara.

Bað

 • Notið hitastýrð blöndunartæki.
 • Notið stamar mottur í bað og sturtu til að minnka líkur á falli.
 • Gott getur verið að setja upp handfang við klósett, sturtu og baðkar til að styðjast við og minnka líkur á falli.
 • Ef motta er á gólfi notið hálkuvörn undir hana og takið hana úr notkun ef hún er farin að vinda upp á sig.

Eld­hús

 • Geymið þá hluti sem eru notaðir mest  í góðri vinnuhæð.
 • Látið rafmagnssnúrur ekki lafa fram af borðum.
 • Forðist að ganga um með heita vökva, til að mynda kaffikönnu og potta.
 • Geymið lyf og hreinsiefni þar sem börn ná ekki til.
 • Hafið eldhússtóla og borð stöðug.
 • Hafið lýsingu góða en passið að styrkleiki pera sé aldrei meiri en perustæði er gefið upp fyrir.

Stig­ar

 • Lýsing þarf að vera góð í stigum og rofar efst og neðst við stigaop.
 • Handrið er mikilvægt til að styðja sig við.
 • Ef tröppur eru hálar er gott að setja hálkustrimla fremst á þær.
 • Gott getur verið að aðgreina neðstu tröppuna með litaborða til að minna á að um síðustu tröppu er að ræða, en algengt er að fólk detti þar.

Stofa

 • Veljið sófa og stóla sem auðvelt er að standa upp úr.
 • Hafið gangveg auðan til að minnka líkur á að hnotið sé um eitthvað þegar gengið er um. Að sama skapi  getur verið gott að fjarlægja þröskulda.
 • Verið viss um að styrkleiki pera sé réttur miðað við perustæði, til dæmis í lömpum.
 • Látið rafmagnssnúrur ekki liggja í gangvegi og setjið ekki of mörg tæki í samband við hvert fjöltengi.
 • Hafið undirlag kerta stöðugt og öruggt og slökkvið á kertum ef stofan er yfirgefin.
 • Ef motta er á gólfi notið hálkuvörn undir hana og takið mottuna úr notkun ef hún er farin að vinda upp á sig.

Svefn­her­bergi

 • Hafið síma við rúmið þegar gengið er til hvílu þar sem hætta getur verið á svima ef farið er snöggt á fætur.
 • Leitist við að hafa rúm frekar há þar sem þá er þægilegra að standa upp úr þeim.
 • Ef lausar mottur eru á gólfi notið hálkuvörn undir þær og takið úr notkun ef þær eru farnar að vinda upp á sig.
 • Með hærri aldri þarf lýsing að vera meiri þar sem breyting verður á sjón. Almennt er hægt að miða við að tvítugum einstaklingi dugi 20 watta lýsing en 70 ára einstaklingur þarf 70 watta lýsingu.
 • Hafið gangveg auðan til að minnka líkur á að hnotið sé um eitthvað þegar gengið er um. Að sama skapi getur verið gott að fjarlægja þröskulda.
 • Gott er að hafa næturljós þar sem náttblinda eykst gjarnan með aldrinum.
 • Vandið val á skófatnaði. Hann þarf að vera stöðugur og sitja vel á fæti.