Um okkur

Umhuga ehf heimaþjónusta var stofnuð í maí árið 2015 og starfsemin hófst formlega 4. janúar 2016.  Fyrirtækið er alfarið í eigu heimamannanna Þórunnar Halldórsdóttur og Árna Steinssonar.  Bæði hafa um árabil komið að þjónustu við aldraða á Norðurlandi. 

Umhuga ehf  er sprotafyrirtæki sem fór af stað með verkefnastyrk til atvinnuþróunar og nýsköpunar sem auglýstir voru vorið 2015 af uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra. 

Hugmyndin að stofnun Umhuga ehf fæddist vegna starfa Þórunnar, þar sem hún hafði reglulega komið inn á heimili aldraðra og fólks sem haldið var sjúkdómum af einhverju tagi.  Þar upplifði hún og gerði sér grein fyrir þeim aðstæðum sem þeir búa oft við.

Þeir hlutir sem við álítum sjálfsagða á yngri árum, meðan heilsa og þrek eru í góðu lagi, verða með hækkandi aldri bæði erfiðari og oft á tíðum óyfirstíganlegir.

Umhuga var m.a. stofnuð í viðleitni til þess að gera fólki kleift að búa heima við sem allra bestu lífskjör á efri árum.  Það er líka skoðun eigenda Umhuga að við eigum að leggja okkar af mörkum til þess að atvinnurekstur sé í höndum heimamanna sem starfa að þjónustunni sjálfri.  Þannig fara rekstrarhagsmunir og samfélagsleg sjónarmið saman.

Markmið Umhuga er að veita einstaklingsmiðaða, persónulega  og sveigjanlega heimaþjónustu, þar sem þarfir og óskir skjólstæðings eru settar ofar öðru, og sami starfsmaður fylgir sínum skjólstæðingi eins lengi og óskað er og þörf er fyrir.

Við hvetjum viðskiptavini og vandamenn að leita ráða hjá okkur ef spurningar vakna varðandi þjónustu okkar, annaðhvort í síma eða að við komum í heimsókn og ræðum málin.